Skurðstofa

Skurðstofa

Á Læknastofum Akureyrar eru 2 fullkomnar skurðstofur, þar sem aðgerðir eru framkvæmdar með eða án svæfingar. Sjá upplýsingar um áhættuþætti svæfingar. 

Tækjabúnaður uppfyllir allar nútíma kröfur um hámarks gæði og öryggi jafnt sjúklinga og starfsfólks. 

Þar eru framkvæmdar flestar algengustu ferliaðgerðir innan skurðlækninga, bæklunarskurðlækninga, háls-, nef og eyrnalækninga, lýtalækninga (einnig fegrunaraðgerðir), þvagfæraskurðlækninga og æðaskurðlækninga. Einnig eru framkvæmdar ristilspeglanir, magaspeglanir og þvagblöðruspeglanir og endaþarmsaðgerðir. Tannviðgerðir og aðrar aðgerðir í munnholi sem eru gerðar í svæfingu.

 

Upplýsingar

  • Sjúklingar (foreldrar) fá upplýsingar hjá lækni um fyrirhugaða aðgerð þegar þeir hitta lækninn í móttöku. 
  • Bæklingur um undirbúning fyrir aðgerð og svæfingu er afhentur sjúklingi eða aðstandenda barns. 
  • Munið að kynna ykkur vel leiðbeiningar um föstu, lyfjatöku fyrir aðgerð og annað.
  • Allir sjúklingar (foreldrar) verða að vera búnir að fylla: Heilsufarsupplýsingar skurðsjúklinga og yfirlýsing um samþykki aðgerðar áður en farið er í aðgerðina. Sjá sýnishorn af upplýsingablaði.


Mæting

Mikilvægt er að sjúklingar mæti á þeim tíma sem þeim var sagt að koma til þess að dagskrá skurðstofunnar riðlist ekki. 

Ef fólk mætir of seint er ekki víst að hægt verði að framkvæma aðgerðina þennan dag og verður þá að ákveða nýjan dag með viðkomandi lækni. 

Óhjákvæmilega geta orðið tafir á dagskrá skurðstofunnar og ef það gerist þá reynum við að láta sjúklinga vita af því eins fljótt og hægt er.

Foreldrar og börn

Foreldrar ungra barna koma með þeim inn á skurðstofu og eru með barninu þar til það hefur verið svæft. 

Þá fara foreldrar fram í biðstofu á meðan á sjálfri aðgerðinni stendur.

Foreldrarnir eru síðan kallaðir inn áður en barnið vaknar svo foreldrar geti verið hjá barninu þegar það vaknar.

 

Eftir aðgerð - Á vöknun

Eftir aðgerðir geta sumir sjúklingar farið beint heim, en aðrir þurfa að dvelja í vissan tíma á vöknun í kjölfarið.

Á vöknun er fylgst með sjúklingum eftir aðgerðir og tryggt að viðkomandi sjúklingar teljist hæfir til að fara heim. Sjúklingar fara ekki heim fyrr en þeir eru lausir við ógleði, svima eða aðra vanlíðan.

Áður en heim er farið fær sjúklingur viðtal við skurðlækni og upplýsingabækling um hvers hann má vænta þegar heim er komið í sambandi við þá aðgerð sem hann fór í.

   

Munið að ef þú ferð í svæfingu mátt þú ekki keyra sjálf(ur) bíl eða önnur ökutæki og þú verður að sjá til þess að einhver komi og sæki þig og að einhver sé með þér heima fyrsta sólarhringinn.

 

Starfsfólk

Á skurðstofunni starfar fólk með mikla reynslu og faglegan metnað hvort sem um er að ræða skurðlækna, svæfingalækna, hjúkrunarfræðinga eða aðstoðarfólk.

Til að fá upplýsingar um einstaka aðgerðir viljum við benda á fræðslusíðuna okkar.


Share by: