Hvernig fer svæfing / slæving fram?

Hvernig fer svæfing / slæving fram?

Hvernig fer svæfing fram?


Fullorðnir
  • Þú gefur þig fram við móttökuritara við komu. Þar færð þú blað til að fylla í varðandi heilsufar, ef það hefur ekki þegar verið gert. 
  • Inn í búningsherbergi færð þú slopp til að klæðast. 
  • Verðmæti getur þú geymt í læstum skáp. 
  • Skurðlæknir merkir aðgerðasvæðið þegar við á. 
  • Svæfingalæknir fer yfir heilsufar og föstu. 
  • Inni á skurðstofu er settur æðaleggur og í hann er gefin forlyf og síðan svæfingalyf eftir að lífsmarkamælir hefur verið tengdur. 
  • Eftir að þú hefur sofnað er svæfingu viðhaldið með innöndunarlyfi sem þú andar að þér alla svæfinguna eða með lyfja-dreypi í æð. Hvort heldur sem gert er færð þú viðbótar súrefni alla svæfinguna. 
  • Þegar aðgerð er lokið ert þú fluttur inn á vöknun (oftast sofandi) þar sem þú vaknar í rólegheitunum í umsjón hjúkrunarfræðings. Viðbótar súrefni er gefið þar til þú ert vel vaknaður. 
  • Á vöknun færð þú að drekka og borða áður en þú klæðir þig. 
  • Heimferð er þegar þú treystir þér til, skurðlæknir hefur rætt við þig og einhver kominn að sækja þig.
  • Þeir sem eru mjög hræddir við nálar hafa stundum sofnað á grímu eins og lýst er í barnakaflanum.


Börn
  • Foreldrar eru með þegar börn þeirra sofna og þegar þau vakna.
  • Börnin koma í eigin fötum inn á skurðstofu í fylgd foreldra. 
  • Oftast er ekki gefin nein forlyfjagjöf, enda í raun ekkert framundan sem er að hræðast. 
  • Engin sársauki fylgir því að sofna með grímu eins og flest börn kjósa að gera. Þau fá grímu með lykt sem minnir á sjáfarilm niðri í fjöru, en stundum er jafnvel hægt að bjóða upp á "íslykt, hestalykt eða súpermannlykt". 
  • Börnin þurfa að anda u.þ.b. 5 sinnum í grímuna til að ná lyktinni til sín og svo til strax eftir það sofna þau. (Tekur minna en 30 sekúndur). Börn sem ekki kjósa að sofna á grímu geta fengið æðalegg eins og lýst er í fullorðinskaflanum. Hægt er að fá deyfikrem í apótekum (EMLA) til að setja yfir stungustað (2 staði) að minnsta kosti klukkustund fyrir uppsetningu æðaleggs. 
  • Eftir að börn eru sofnuð halda þau áfram að anda að sér svæfingalyfinu þar til aðgerð lýkur. 
  • Oft er settur æðaleggur meðan börnin sofa, sem notaður er til að gefa verkjalyf, ógleðislyf og/eða vökva. Þau eru síðan flutt á vöknun þar sem þau vakna í rólegheitum hjá foreldrum og hjúkrunarfræðingi. 
  • Þar fá þau að drekka og frostpinna ef þau vilja áður en farið er heim.

 

Hvernig fer slæving fram?

  • Þú gefur þig fram við móttökuritara við komu. Þar færð þú blað til að fylla í varðandi heilsufar, ef það hefur ekki þegar verið gert. 
  • Inn í búningsherbergi færð þú slopp til að klæðast. 
  • Verðmæti getur þú geymt í læstum skáp. 
  • Skurðlæknir merkir aðgerðasvæðið þegar við á. 
  • Svæfingalæknir fer yfir heilsufar og föstu. 
  • Inni á skurðstofu er settur æðaleggur og í hann er gefin verkjalyf og slævandi lyf eftir að lífsmarkamælir hefur verið tengdur. 
  • Vegna áhrifa þessara lyfja finnur þú minna en ella fyrir staðdeyfingu sem skurðlæknirinn leggur. 
  • Eftir deyfinguna á ekki að vera neinn sársauki, en ef það gerist lætur þú strax vita, og er þá alltaf hægt að bæta á deyfingu. Margir lúra svo á meðan aðgerð stendur. 
  • Síðan ert þú fluttur á vöknun þar sem þú dvelur á meðan þú ert að jafna þig. Þar færð þú að drekka og borða eftir því sem þú hefur list á. 



Helga Magnúsdóttir 

Svæfingalæknir


Share by: