Fasta fyrir svæfingar og slævingar

Fasta fyrir svæfingu / slævingu


  • Sömu reglur gilda fyrir fullorðna og börn eldri en eins árs.
  • Drekka má tæra vökva þar til 2 klukkustundum fyrir svæfingu. Tær vökvi er agna- og fitulaus vökvi til dæmis vatn, tær ávaxtasafi, te og kaffi ( mjólkurlaust).
  • Ekki má borða fasta fæðu í minnst 6 klukkustundir fyrir svæfingu.
  • Brjóstamjólk og kúamjólk telst til fastrar fæðu.
  • Fullorðnir mega drekka 150 millilítra af vatni (hálft glas), með lyfjum einni klukkustund fyrir svæfingu, en börn 75 millilítra af vatni með lyfjum.
  • Tóbak og tyggjó á að forðast í tvo tíma fyrir svæfingu.
  • Almennt er miðað við að sjúklingar fasti frá miðnætti en ef aðgerð er skipulögð eftir hádegi getur verið gott að vakna snemma og fá sér morgunmat. Betra er að drekka tært þar til 2 tímum fyrir svæfingu sérstaklega ef aðgerð er þegar líða tekur á daginn. Það kemur í veg fyrir þorsta og gerir sjúkling betur undir búin fyrir svæfingu. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir föstu eiga gjarnan að drekka sæta drykki s s ávaxtasafa.


Hvers vegna þarf að fasta fyrir svæfingar og slævingar?

  • Þessi varúðarrástöfun er gerð til að minnka líkur á ásvelgjan (aspiration) það er að magainnihald flæði upp vélindað og niður í lungu. Þetta er einn af alvarlegum fylgikvillum sem geta komið upp í svæfingu, þar sem svæfing truflar eðlilega kyngingu. Magainnihald sem fer ofan í lungu getur valdið alvarlegum skemmdum á lungnavef og starfsemi lungna.
  • Ef þessum reglum er fylgt þá er hættan á ásvelgingu afar lítil.


Helga Magnúsdóttir, svæfingalæknir

Heimild: Scandinavian guidelines for pre-operative fasting in elective patients.


Share by: