Rör sett í hljóðhimnu

 Rör sett í hljóðhimnu

Ástæða aðgerðar

Slím eða vökvi í miðeyra.


Almennar upplýsingar 

Miðeyrað er innan við hljóðhimnu eyrans. Það er loftfyllt holrúm, þar sem m.a. heyrnarbeinin (hamar, steðji og ístað) eru. Við eðlilegt ástand, leiða þessi bein hljóðið frá hljóðhimnunni til innra eyrans, sem sér um heyrnina. 

Miðeyrað þarf að hafa eðlilega loftrás um kokhlustina, sem tengir miðeyrað við kokið.

Vökvi í miðeyra kemur vegna truflunar á loftflæði um kokhlustina. Kokhlustin er óþroskuð og starfar ekki eðlilega hjá börnum fyrr en þau hafa náð 5-6 ára aldri. Auk þess veldur kvef eða ofnæmi þrota (eða bólgu) í kokhlustinni og stíflar hana.

Algengustu einkenni vökvamyndunar í miðeyra eru hellutilfinning og minnkuð heyrn. Stöku sinnum óþægindi við geispa eða kyngingu. Kvillinn dylst oft foreldrum því lítil börn geta ekki sagt frá að þau heyri illa.

Þegar vökvinn í miðeyranu er orðið þykkur og slímkenndur þarf að fjarlægja hann. Það er gert með ástungu á hljóðhimnuna og slímið sogað út. 

Oftast er samtímis sett örsmátt plaströr í gegnum hljóðhimmnuna og hleypir rörið lofti inn í miðeyrað og jafna þar þrýsting í staðinn fyrir kokhlustina. Plaströrið er yfirleitt látið vera kyrrt og er óþægindalaust ef það helst opið. Það eru þó ekki látið vera lengur en 2 ár, því þá er aukin hætta á viðvarandi gati á hljóðhimnu.


Undirbúningur, aðgerð og dvöl á vöknun

Barnið kemur fastandi og aðgerðin er gerð í svæfingu. Sjaldnast er þörf á forlyfjagjöf annað en paracetamól klukkutíma fyrir komu. Barnið sofnar yfirleitt með að anda að sér svæfingalyfi í gegnum grímu. Foreldrar eru hjá barninu þegar það sofnar og þegar það vaknar inni á vöknun. Barnið má fara heim þegar það vaknar og borða og dekka að vild. Ógleði er afar sjaldan eftir þessa aðgerð. Áður en barnið fer heim færðu upplýsingar frá lækninum um hvernig aðgerðin gekk og hvernig eftirmeðferðin er.


Verkir og verkjameðferð

Það eru yfirleitt ekki miklir verkir eftir röraísetninguna. Einstaka barn finnur fyrir pirringi í eyrunum og má þá gefa barninu Parasetamól skv upplýsingum á umbúðum skv þyngd þess eða eftir fyrirmælum læknis.


Matur og drykkur

Barnið má borða og drekka strax eftir að það vaknar.


Fylgikvillar

Vökvi getur runnið út úr eyranu fyrstu dagana eftir aðgerðina og er það eðlilegt, en vari rennslið lengur en 3 daga og ef það blæður úr eyranu í einhverju magni þá skal hafa samband við lækni.

Athugið - hreinsið aðeins ytra eyrað en ekki inn í hlust!!

Varist að það komi vatn í eyrun fyrstu vikuna. Mælt er með að fara í sturtu fyrst á eftir og bíða með bað. Leyfilegt er að fara í sund eftir eina viku. Ef barnið er að kafa mikið í sundi er gott að setja vatnshelda bómull í eyrun og nota sundhettu yfir.


Hreyfing

Barnið má fara á dagheimilið eða í skólann daginn eftir aðgerðina. 


Neyðarsími fyrsta sólarhringinn eftir aðgerð er 842 5333


Erlingur Hugi Kristvinsson

Hannes Petersen


Share by: