Magaspeglun

Magaspeglun

Magaspeglun – upplýsingar til sjúklinga

Magaspeglun er rannsókn á efri hluta meltingarvegar þ.e.a.s. vélinda, maga og skeifugörn. Rannsóknin er gerð með sveigjanlegu magaspeglunartæki og er framkvæmd af sérfræðilækni sem er sérstaklega til þess þjálfaður. Algengar ástæður fyrir magaspeglun eru ýmis einkenni frá maga svo sem kviðverkur, ógleði, uppköst, bakflæði, uppþemba, blóðleysi, grunur um magasár eða vélindabólgur. Hér eru helstu upplýsingar sem þú þarft áður en þú ferð í magaspeglun.


Undirbúningur

Mikilvægt er að vera fastandi frá miðnætti kvöldinu fyrir rannsókn en drekka má vatn þar til tveimur tímum fyrir rannsókn nema læknir gefi fyrirmæli um annað. Ekki má reykja eftir miðnætti. Bursta má tennur og skola munninn. Þú mátt taka lyfin þín með nokkrum sopum af vatni.


Láttu vita fyrir komu ef þú hefur:

  • Lyfjaofnæmi
  • Latexofnæmi
  • Ert barnshafandi eða með barn á brjósti

 

Rannsóknin

Þú hefur val um að fá slakandi lyf í æð meðan á rannsókn stendur. Kjósir þú að fá slakandi lyf er settur upp æðaleggur. Kok er deyft með staðdeyfingarúða sem minnkar óþægindin þegar slöngunni á magaspeglunartækinu er rennt aftur í kokið. Hafir þú fastar tennur færð þú tannstykki til að bíta í til varnar speglunartækinu. 

Meðan á speglun stendur liggur þú á vinstri hlið með hnén örlítið beygð. Best er að setja hökuna niður í bringu því þannig er greiðari leið niður í vélindað. Þú þarft að kyngja slöngunni á tækinu þegar læknirinn segir til og getur þú þá fundið fyrir óþægindum og klígjukennd. Eftir að slangan er komin niður er mikilvægt að láta munnvatnið renna út og ekki kyngja meira. Stundum er lofti blásið niður í magann til þess að geta skoðað hann enn betur. Loftið getur valdið þrýstingi og ropa. Gott er þá að anda hægt og rólega til þess að ná góðri slökun því þá kúgast þú síður og rannsóknin gengur betur. Vefjasýni eru tekin ef ástæða þykir til og er það sársaukalaust.

 

Eftir rannsókn:

Hafir þú fengið slakandi lyf í æð færð þú að jafna þig á vöknunarstofu í um klukkustund. Hafir þú ekki fengið slakandi lyf getur þú farið heim strax að lokinni rannsókn.

 

Sá læknir sem framkvæmdi rannsóknina mun ræða við þig um niðurstöður hennar áður en þú ferð heim. Hafi verið tekin vefjasýni þarf að bíða í einhverja daga eftir niðurstöðum þeirra.

Fyrst eftir rannsóknina getur þú fundið fyrir uppþembu vegna þess að lofti er blásið í magann. Einnig getur þú fundið fyrir eymslum í hálsi í 1-2 daga eftir rannsókn. Vegna kokdeyfingar er ekki ráðlagt að drekka eða borða fyrr en 30 mínútum eftir rannsókn.

Mikilvægt er að aka ekki bíl í 12 klst. eftir gjöf slakandi lyfja. Lyfin hafa áhrif á viðbragðsflýti og þú getur fundið fyrir þreytu, slappleika og minnistapi og því er ráðlagt að taka daginn rólega eftir rannsóknina. 


Áhætta og fylgikvillar

Magaspeglun er örugg rannsókn. Öllum læknisfræðilegum inngripum fylgir hins vegar einhver áhætta og komið geta upp ófyrirsjáanlegir fylgikvillar sem þarf að bregðast við. Blæðing getur orðið t.d. þegar tekin eru sýni eða separ, oftast er hún væg og þarfnast ekki inngripa.

Vegna kokdeyfingar er viss hætta á ásvelgingu og því er ráðlagt að láta allt munnvatn leka út í rannsókninni og reyna ekki að kyngja. Eftir rannsóknina getur þú fundið fyrir særindum í hálsi.

Share by: