Leiðbeiningar eftir ófrjósemisaðgerð "herraklipping"

Leiðbeiningar eftir ófrjósemisaðgerð "herraklipping"

Leiðbeiningar eftir ófrjósemisaðgerð (“Herraklipping") Karlar

Eftir ófrjósemisaðgerð geta vaknað hjá þér spurningar við hverju má búast næstu daga og vikur.


Hvað skal varast eftir aðgerð

Þú mátt ekki aka bíl (eða hjóla) sjálfur heim ef þú hefur fengið lyf í æð og því þarftu að láta sækja þig. Taktu því rólega aðgerðardaginn og ekki hjóla eða stunda íþróttir sem geta reynt óeðlilega mikið á punginn fyrstu dagana eftirá. Samfarir eða sjálfsfróun skyldi forðast fyrstu 7-10 dagana í kjölfar aðgerðar. Óhætt er að fara í sturtu næsta dag, en ekki sund/baðkar fyrr en skurðirnir eru grónir (lokaðir), oftast eftir 2 vikur. Ef saumar hverfa ekki, þá máttu klippa eða láta fjarlægja þá sjálfur. Ef þú hefur verið á blóðþynnandi lyfjum, þá skaltu spyrja lækni um töku þeirra. 


Mögulegir fylgikvillar í kjölfar aðgerðar

Flestir finna fyrir þyngslum eða ónotum í pung fyrstu dagana og best að nota verkjalyf eins og parasetamól sem eykur ekki blæðingu. Allir fá eitthvað mar og eða blæðingu í punginn en ef blæðing/marið er vaxandi, eða pungurinn að þenjast óeðlilega mikið út, þá þarf að hafa samband við lækni eða leita á sjúkrahús. Erting eða roði vegna sauma kemur fyrir. Sýking í sári er afar sjaldgæf, en verkir eða ónot í pung og nárum hverfa fyrstu 2 vikurnar hjá flestum. Stundum myndast þykkildi undir skurðinum vegna örvefsmyndunar á sæðisleiðurum sem hverfur sjálfkrafa en getur valdið eymslum. Fylgikvillar eru þó almennt fátíðir og yfirleitt minniháttar. Ristruflun eða breytingar á hormónastarfsemi er ekki hægt að rekja til aðgerðarinnar, kyngetan er óbreytt og karlar hafa eftir sem áður sáðlát með sömu tilfinningu, en þá án sæðisfrumna. 


Eftirlit

Sjúklingi er ráðlagt að hafa samband við lækni ef einhverjar spurningar vakna í kjölfar aðgerðar eða vandamál koma upp. Skila skal sæðisprufu í samráði við lækni er framkvæmir aðgerðina til þess að kanna hvort aðgerðin hafi heppnast og er hún á ábyrgð sjúklings. Sæðisprufu má skila í þvagprufuglasi sem fæst keypt í lyfjabúð. Sjúklingar þurfa að hafa haft sáðlát (við sjálfsfróun eða samfarir) í að minnsta kosti 15 skipti áður en sæðisprufan er tekin 8-12 vikum eftir aðgerðina. 


Hversu örugg er aðgerðin? 

Sæðisleiðararnir geta opnast að nýju í minna en eitt prósent tilvika. Slíkt getur gerst jafnvel mörgum árum eftir aðgerðina og er ekkert sem getur með vissu komið í veg fyrir það. Ekki eru alvarlegir fylgikvillar þekktir til lengri tíma litið, en 1-2% sjúklinga geta verið með verki til langframa. 


Barneignir

Hægt er tengja sæðisleiðarana saman að nýju með skurðaðgerð og möguleiki er líka með tæknifrjóvgun sem og að láta frysta sæði fyrir aðgerðina. Það er þó ekki hægt að tryggja barneignir að nýju með þessum aðferðum. Gæði sæðisins versna yfirleitt eftir því sem fleiri ár líða frá aðgerð og einnig myndast mótefni sem truflað geta árangurinn.


Athugið

Ef eitthvað kemur upp á fyrsta sólarhringinn eftir aðgerð er neyðarsími Læknastofu Akureyrar 8425333. 


Valur Þór Marteinsson: 820 0541

 

Gangi þér vel

Starfsfólk 


Share by: