Læknastofur Akureyrar er einkarekið fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu.
Þetta er fyrirtæki sérfræðilækna, sem hafa að markmiði að vera leiðandi
innan læknisfræðilegrarog annarrar heilsutengdrar þjónustu og
veita öllum gæðaþjónustu er þangað leita.
-
Starfsemin samanstendur af hefðbundnum læknastofum með sérfræðimóttöku og skurðstofum, þar sem ferliverkaaðgerðir eru framkvæmdar. Einnig hafa ýmsir aðrir sérfræðingar aðstöðu hjá læknastofunum.
-
Læknastofur Akureyrar sinna sjúklingum á öllum aldri og hvaðan sem er af landinu.
-
Rafrænt sjúkraskrárkerfi er notað af flestum læknunum sem þar starfa en það tekur yfir sjúkraskrár, bókanir, reikningagerð og annað er tengist meðferð og skoðun sjúklinga sem og eftirliti þeirra. Á sjálfum læknastofunum er unnið gegnum lokað netkerfi. Hver notandi er með sitt eigið notandanafn og lykilorð.
-
Fræðsludagur starfsfólks er haldinn árlega. Einnig er þjálfun og æfing viðbragða í bráðatilfellum yfirfarin árlega. Hið sama gildir um brunavarnir og viðbrögð við bruna.
-
Læknastofur Akureyrar styðja við listastarfsemi á Akureyri með rekstri gallerýs, Gallerý LAK þar sem ýmsir listamenn hafa sýnt verk sín.
Framkvæmdastjóri fyrirtækisins er Ingibjörg Ólöf Isaksen
Sagan og upphafið
-
Læknastofur Akureyrar voru stofnaðar af þeim Guðna Arinbjarnar og Vali Þór Marteinssyni árið 2003 þegar þeir opnuðu saman læknastofum á 2. hæð í húsnæði Greifans á Glerárgötu.
-
Síðan í lok árs 2005 bættust þeir Edward Kiernan, Friðrik Páll Jónsson og Erlingur Hugi Kristvinsson í hópinn og var þá ákveðið að festa kaup á húsnæði fyrir Læknastofurnar í Hofsbót 4 og voru þessir 5 sérfræðilæknar þar með stofur til ársins 2008.
-
Í byrjun árs 2008 bættust svo þau Ágúst Birgisson og Helga Magnúsdóttir í hópinn en Edward flutti á því tímabili starfsvettvang sinn til Akranes. Þá fluttu Læknastofur Akureyrar í stærra húsnæði að Hafnarstræti 97 (Krónunni) á 6 hæð. Í þessu húsnæði var ákveðið að opna fullkomna skurðstofu svo hægt væri að framkvæma ferliverka aðgerðir. Í þessu nýja húsnæði var leitast við að sníða húsnæðið að þörfum sjúklinga, aðstandenda og starfsfólks. Húsnæðið samanstendur af 7 móttökustofum og 2 skurðstofum ásamt vöknunarstofu.
- Árið 2016 bættust Hannes Petersen og Girish Hirlekar í eigendahópinn. Nú var farið að þrengja að aðstöðunni og því var ráðist í það verk að flytja Læknastofur Akureyrar enn á ný. Samið var við Eik fasteignafélag um að leigja húsnæði á 2. hæð á Glerártorgi. Árið 2016 fór í það að fullklára það húsnæði og setja þar inn glæsilegar móttöku og skurðstofur. Flutt var inn í þetta nýja húsnæði 31. október 2016. Aðstaðan er öll hin besta fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. Þarna eru 11 móttökustofur og 2 fullkomnar skurðstofur. Árið 2017 var fjárfest í tækjum til að framkvæma maga- og ristilspeglanir og fengum við Tryggva Stefánsson lækni til að framkvæma þessar rannsóknir. Í maí 2019, hóf Nick Cariglia sérfræðingur í lyflækningum og meltingasjúkdómum, störf hér hjá okkur, en hann ætlar að leggja aðaláherslu á ristil og magaspeglanir.
- Árið 2017 bættist Björn Gunnarsson við eigendahópinn.
Markmið Læknastofa Akureyrar er:
-
Að veita skilvirka, öfluga, faglega og örugga þjónustu með góðu viðmóti gagnvart öllum sem þangað leita.
-
Að sjúklingar sem leita til Læknastofa Akureyrar finni fyrir öryggi og góðu viðmóti, og að þeir vilji koma aftur með sín heilbrigðisvandamál.
-
Að starfsfólki og þeir sem eru með aðstöðu á Læknastofum Akureyrar líði vel í vinnunni og að allir finni að þeir eru mikilvægur hluti af heildinni.
Tölfræði upplýsingar:
Ár | Fjöldi skurðaðgerða | Fjöldi móttöku sjúlinga |
2008 | 1206 | 8300 |
2009 | 1526 | 9543 |
2010 | 1738 | 9728 |
2011 | 1776 | 9764 |
2012 | 1735 | 7682 |
2013 | 1845 | 8885 |
2014 | 1801 | 8791 |
2015 | 1833 | 10766 |
2016 | 1983 | 11252 |
2017 | 2146 | 10824 |
2018 | 1896 | 11237 |
2019 | 1949 | 11304 |