Vinstri ristilspeglun – Upplýsingar til sjúklinga
Vinstri ristilspeglun er rannsókn á endaþarmi og neðsta hluta ristils. Rannsóknin er gerð með sveigjanlegu ristilspeglunartæki og er framkvæmd af sérfræðilækni sem er sérstaklega til þess þjálfaður. Í gegnum tækið er hægt að skoða slímhúð meltingarvegarins. Algengar ástæður fyrir vinstri ristilspeglun eru t.d. ýmis einkenni frá ristli eins og breytingar á hægðum, kviðverkir, blóð í hægðum og grunur um sepamyndun eða bólgusjúkdóm í ristli. Hér er að finna helstu upplýsingar sem þú þarft áður en þú ferð í vinstri ristilspeglun.
Undirbúningur
Þú þarft að kaupa tvær túbur af Fosfat klysma (® Klyx)í apóteki án lyfseðils. Ef þú tekur járntöflur þarf að hætta inntöku þeirra 5 dögum fyrir rannsóknardag. Ef þú tekur blóðþynningarlyf mun læknirinn sem framkvæmir rannsóknina ákveða hvort gera þurfi hlé á töku þeirra fyrir rannsóknina. Ef þú tekur einhver önnur lyf máttu taka þau allt að tveimur tímum fyrir rannsókn nema læknir ákveði annað.
Daginn fyrir rannsókn máttu borða alla almenna fæðu og mikilvægt er að drekka vel. Að kvöldi skal nota eina túbu af Fosfat klysma (® Klyx) í endaþarm samkvæmt leiðbeiningum sem fylgja lyfinu. Reynst hefur vel að bera mýkjandi krem á enda túbunnar áður en hún er sett upp.
Rannsóknardaginn máttu drekka tæran vökva, t.d. sætt te eða gosdrykk, þar til tveimur tímum fyrir rannsókn. Nota skal aðra túbu af fosfat klysma ½ -1 klst. fyrir rannsókn ef hægt er – annars fyrr. Eftir seinni túbuna getur aftur komið óhreinn vökvi frá þér en þar er einungis um lokahreinsun að ræða.
Láttu vita ef þú hefur:
Lyfjaofnæmi
Latexofnæmi
Ert barnshafandi eða með barn á brjósti
Rannsóknin
Þú hefur val um að fá slakandi lyf og verkjalyf í æð meðan á rannsókn stendur en sjaldnast er þörf fyrir það í stuttri ristilspeglun. Kjósir þú að fá lyf er settur upp æðaleggur. Lyfin eru gefin rétt áður en rannsókn hefst.
Meðan á speglun stendur liggur þú á vinstri hlið með hnén örlítið beygð. Læknir ber deyfikrem á endaþarminn og þreifar hann. Læknir þræðir svo speglunartækið upp eftir ristlinum. Lofti er blásið upp í ristilinn til að auðvelda skoðun og þá getur þú fundið fyrir vindverkjum. Einnig getur þú fundið fyrir þrýstingsverk fram í kviðinn. Gott er að anda þá hægt og rólega til þess að ná góðri slökun. Meðan á rannsókninni stendur getur þú þurft að velta þér til á bekknum og leggjast á bakið. Vefjasýni eru tekin ef ástæða þykir til og er það sársaukalaust.
Eftir rannsókn
Hafir þú fengið lyfjagjöf í æð færð þú að jafna þig á vöknunarstofu í um klukkustund eða eftir þörfum. Hafir þú ekki fengið lyfjagjöf getur þú farið heim strax að lokinni rannsókn.
Læknirinn sem framkvæmdi rannsóknina mun ræða við þig um niðurstöður rannsóknarinnar áður en þú ferð heim. Hafi verið tekin vefjasýni þarf að bíða í einhverja daga eftir niðurstöðum þeirra.
Mikilvægt er að aka ekki bíl í 12 klst. eftir gjöf slakandi lyfja og verkjalyfja. Lyfin hafa áhrif á viðbragðsflýti og þú getur einnig fundið fyrir þreytu og slappleika eftir lyfjagjöfina og því er ráðlagt að taka daginn rólega eftir rannsóknina.
Þú mátt borða alla almenna fæðu að lokinni rannsókn.
Ef þú finnur fyrir skyndilegri breytingu á líkamlegu ástandi eins og að kviður harðni, kviðverkir aukast, þú færð hita eða blæðing verður frá endaþarmi skaltu hafa samband við lækni.
Áhætta og fylgikvillar
Ristilspeglun er örugg rannsókn. Öllum læknisfræðilegum inngripum fylgir þó einhver áhætta og komið geta upp ófyrirséðir fylgikvillar sem þarf að bregðast við. Blæðing getur orðið t.d. þegar tekin eru sýni eða separ, oftast er hún væg og stöðvast sjálfkrafa. Slakandi lyf geta valdið aukaverkunum en slíkt er afar sjaldgæft.