Maga- og ristilspeglun – upplýsingar til sjúklinga
Ef þú ert að koma samtímis í magaspeglun og ristilspeglun. Hér eru helstu upplýsingar sem þú þarft áður en þú kemur í speglun.
Láttu vita fyrir komu ef þú hefur:
Lyfjaofnæmi
Latexofnæmi
Ert barnshafandi eða með barn á brjósti
Magaspeglun er rannsókn á efri hluta meltingarvegar þ.e.a.s. vélinda, maga og skeifugörn. Ristilspeglun er rannsókn á öllum ristlinum frá endaþarmi að botnlanga og enda smágirnis. Rannsóknirnar eru gerðar með sveigjanlegum speglunartækjum og eru framkvæmdar af sérfræðilækni sem er sérstaklega til þess þjálfaður. Algengar ástæður fyrir magaspeglun eru ýmis einkenni frá maga svo sem kviðverkur, ógleði, uppköst, bakflæði, uppþemba, blóðleysi, grunur um magasár eða vélindabólgur. Algengar ástæður fyrir ristilspeglun eru t.d. blóðleysi, ýmis einkenni frá ristli eins og breytingar á hægðum, kviðverkir, blóð í hægðum og grunur um sepamyndun eða bólgusjúkdóm í ristli.
Undirbúningur
Undirstöðuþáttur í að hægt sé að gera ristilspeglun er úthreinsun (útskolun) ristils. Því þarf að fylgja vandlega meðfylgjandi leiðbeiningum um fæðu og úthreinsun fyrir ristilspeglun. Það er mjög mikilvægt að leiðbeiningunum sé fylgt nákvæmlega því annars verður erfiðara að framkvæma rannsóknina og hún verður ónákvæm. Úthreinsun ristilsins felst í því að vera á tæru fljótandi fæði og drekka mixtúru sem er hægðalyf til þarmahreinsunar. Fullkomin úthreinsun miðast við að í lokin gangi niður því sem næst tær og tægjulaus vökvi (getur verið gulleitur).
Ekki má reykja eftir miðnætti fyrir rannsókn. Bursta má tennur og skola munninn.
Ef þú ert á blóðþynningarlyfjum mun læknirinn sem framkvæmir rannsóknina taka ákvörðun um hvort gera þurfi hlé á töku þeirra. Takir þú járntöflur skal hætta inntöku þeirra 5 dögum fyrir rannsókn. Ef þú ert á Glucophage sykursýkislyfi skal sleppa að taka það daginn fyrir rannsókn og að morgni rannsóknardags. Ef þú ert á öðrum sykursýkislyfjum skal einungis taka hálfan skammt daginn fyrir rannsókn og að morgni rannsóknardags. Önnur lyf má taka eins og vanalega þar til tveimur klukkustundum fyrir rannsókn. Ef eitthvað er óljóst varðandi töku lyfja er þér bent á að hafa samband við lækni (t.d. heimilislækni eða lækni sem þú hefur verið í sambandi við).
Rannsóknin
Settur er upp æðaleggur við komu og gefin eru verkjalyf og slakandi lyf í æð rétt áður en rannsókn hefst.
Magaspeglun: Hafir þú lausar tennur eða tannparta, lokk í tungu eða annað slíkt er það fjarlægt meðan á speglun stendur. Kok er deyft með staðdeyfingarúða sem minnkar óþægindin þegar slöngunni á magaspeglunartækinu er rennt aftur í kokið. Hafir þú fastar tennur færð þú tannstykki til að bíta í til varnar speglunartækinu.
Meðan á speglun stendur liggur þú á vinstri hlið með hnén örlítið beygð. Best er að setja hökuna ofan í bringu því þannig er greiðari leið niður í vélindað. Þú þarft að kyngja slöngunni á tækinu þegar læknirinn segir til og getur þú þá fundið fyrir óþægindum og klígjukennd. Eftir að slangan er komin niður er mikilvægt að láta munnvatnið renna út og ekki kyngja meira. Stundum er lofti blásið niður í magann til þess að geta skoðað hann enn betur. Loftið getur valdið þrýstingi og ropa. Gott er þá að anda hægt og rólega til þess að ná góðri slökun því þá kúgast þú síður og rannsóknin gengur betur. Vefjasýni eru tekin ef ástæða þykir til og er það sársaukalaust. Magaspeglun tekur oftast um 5-10 mínútur.
Ristilspeglun: Meðan á ristilspeglun stendur liggur þú á vinstri hlið með hnén örlítið beygð. Lofti er blásið upp í ristilinn til að auðvelda skoðun og auka yfirsýn og þá getur þú fundið fyrir vindverkjum. Einnig getur þú fundið fyrir þrýstingsverk fram í kviðinn. Gott er að anda hægt og rólega til þess að ná góðri slökun. Meðan á rannsókninni stendur getur þú þurft að velta þér til á bekknum og leggjast á bakið. Vefjasýni eru tekin ef ástæða þykir til og er það sársaukalaust. Ristilspeglun tekur oftast um 30-40 mínútur.
Eftir rannsókn
Að rannsókn lokinni færð þú að jafna þig í um klukkustund eða eftir þörfum inni á vöknunarstofu. Læknirinn sem framkvæmdi rannsóknirnar mun ræða við þig um niðurstöður þeirra áður en þú ferð heim. Hafi verið tekin vefjasýni þarf að bíða í einhverja daga eftir niðurstöðum þeirra.
Mikilvægt er að aka ekki bíl í 12 klst. eftir gjöf slakandi lyfja og verkjalyfja. Lyfin hafa áhrif á viðbragðsflýti og þú getur fundið fyrir þreytu, slappleika og minnistapi og því er ráðlagt að taka daginn rólega eftir rannsóknina.
Þú mátt borða alla almenna fæðu að lokinni rannsókn. Vegna kokdeyfingar er þó ekki ráðlagt að drekka eða borða fyrr en 30 mínútum eftir magaspeglun.
Ef þú finnur fyrir skyndilegri breytingu á líkamlegu ástandi eins og að kviður harðni, kviðverkir aukast, þú færð hita eða blæðing verður frá endaþarmi skaltu hafa samband við lækni.
Áhætta og fylgikvillar
Magaspeglun og ristilspeglun eru öruggar rannsóknir. Öllum læknisfræðilegum inngripum fylgir þó einhver áhætta og komið geta upp ófyrirséðir fylgikvillar sem þarf að bregðast við. Blæðing getur orðið t.d. þegar tekin eru sýni eða separ, oftast er hún væg og stöðvast sjálfkrafa.
Vegna kokdeyfingar er viss hætta á ásvelgingu og því er ráðlagt að láta allt munnvatn leka út í rannsókninni og reyna ekki að kyngja. Eftir rannsóknina getur þú fundið fyrir særindum í hálsi. Slakandi lyf geta svo valdið aukaverkunum en slíkt er afar sjaldgæft.